Erlendir fjárfestar tregir til að fjárfesta í ónýtum gjaldmiðli

Frétt af mbl.is

Erlendir fjárfestar tregir

Viðskipti | mbl.is | 29.2.2008 | 15:06
Sigurður Einarsson. Eitt helsta vandamál íslensks fjármálamarkaðar er að ekki hefur tekist að laða að erlenda langtímafjárfesta. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, á málstofu BSRB um lífeyrismál í dag.

 
 
 

„Ein augljós hindrun í því er íslenska krónan. Þótt margir erlendir lífeyrissjóðir vilji gjarnan fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og geti vel sætt sig við þá áhættu sem slík fyrirtæki bæta við vel dreift eignasafn, vilja þeir síður taka á sig þá viðbótaráhættu sem felst í gjaldmiðlinum.

Önnur ástæða þessa er - já krónan, eða öllu heldur hvernig hún hefur verið markaðssett af Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur hvatt til vaxtarmunaviðskipta með háum skammtímavöxtum. Það þarf engan doktor í hagfræði til að sjá að hvorki núverandi viðskiptahalli né vaxtastig gengur til langframa.

Fyrr en síðar munu vextir lækka og gengi krónunnar leita jafnvægis. Þeir sem fjárfesta í krónubréfum vita því mæta vel að brátt mun verðgildi þeirra rýrna. Líkast til telja þeir sjálfum sér trú um að þegar það gerist geti þeir selt á undan öllum öðrum. Það veldur síðan því, að þegar krónan leitar jafnvægis verður að öllum líkindum mikið yfirskot. Það eru með öðrum orðum ekki langtímafjárfestar sem fjárfesta í krónubréfum, en ástæða er til að ætla að töluvert sé um spennufíkla. Það getur ekki talist heilbrigt," segir Sigurður.

Segir Seðlabankann sópa verðbólgunni undir teppið

Að sögn Sigurðar er í umræðunni um efnahagsmál oft talað um að íslenska krónan sé hávaxtamynt, því gerist ekki þörf á að ræða hvers vegna vextir á Íslandi séu svona háir, svarið liggur í augum uppi, krónan er jú hávaxtamynt.

„En er málið virkilega svona einfalt? Eða hefur krónan - einfaldlega verið markaðssett sem hávaxtamynt? Ég held að það sé nokkuð til í því. Undanfarin ár hefur Seðlabankinn hækkað vexti og þannig styrkt gengi krónunnar sem aftur hefur valdið lækkun á verði innfluttrar vöru og þannig breitt yfir innlenda verðbólgu að nokkru leyti.

Gallinn við þessa aðferð er hins vegar sá að gengi krónunnar, svo lengi sem það er stöðugt, hefur engin áhrif á vísitölu neysluverðs. Seðlabankinn hefur því þurft að styrkja gengi krónunnar sífellt meira til að sópa verðbólgunni undir teppið. Þessi stefna getur ekki á nokkurn hátt talist sjálfbær enda er svo komið að hátt gengi gjaldmiðilsins ásamt eftirlátssamri ríkisfjármálastefnu hefur leitt til hæsta viðskiptahalla sem þekkst hefur á meðal ríkja OECD.

En þrátt fyrir það er verðbólgan utan vikmarka Seðlabankans, og muna vart elstu menn hvenær hún var síðast innan þeirra.

Í hagkerfi sem farið er að fjármagna sig í æ ríkara mæli í erlendri mynt eykur gengisstyrking og einkum í sér í lagi væntingar um gengisstyrkingu á þenslu með því að auka spurn eftir innfluttri vöru og lækka fjármagnskostnað erlendra lána. Það er spurning hvort ekki sé rétt að Seðlabankinn bakki út úr þessu öngstræti, ýti verðbólgumarkmiði tímabundið að minnsta kosti til hliðar og þjóðin stöðvi erlenda skuldasöfnun og búi atvinnulífinu samkeppnishæf rekstrarskilyrði með heilbrigðara vaxtastigi og raungengi?"

Danir hnýta ekki í lífeyrissjóðina

Sigurður gerði útrás íslenskra fyrirtækja að umræðuefni og aðkomu lífeyrissjóðanna að henni. Sagðist hann telja að ekkert íslenskt fyrirtæki farið í útrás, án þess að lífeyrissjóðir hafi verið þar meðal helstu fjárfesta.

„Eðli síns vegna eru lífeyrissjóðir mjög æskilegir fjárfestar fyrir fyrirtæki, já ég segi æskilegir fjárfestar jafnvel þótt öllum sé heimilt að kaupa og selja fyrirtæki sem skráð er á markaði. Fjárfestingarrammi lífeyrissjóða er mun lengri en flestra annarra fjárfesta þannig að eign þeirra skapar ákjósanlega kjölfestu í hluthafahópi og gerir fyrirtækjum kleift að horfa lengra fram á veg í ákvörðunum sínum," segir Sigurður.

Segir hann hlutverk lífeyrissjóða felast í því að byggja upp sparnað fólks til að standa straum af útgjöldum þess þegar að starfslokum kemur. „Það er mikil eign sem heimilin í landinu hafa safnað í digra lífeyrissjóði og í nýlegri skýrslu kom einmitt fram að íslensku sjóðirnir væru stærstir í OECD, já og ekki einu sinni Danir sjá ástæðu til að hnýta í lífeyrissjóði okkar.

Þetta snertir útrásarfyrirtækin á tvo vegu. Annars vegar gerir þetta öryggi um ellilífeyri fólki kleift að taka meiri áhættu en ella, stofna fyrirtæki og hrinda draumum í framkvæmd. Þetta aukna frumkvæði eykur svo hag okkar allra og ein víðtækasta birtingarmynd þess er þessi svokallaða útrás.

Önnur áhrif og jafnvel mikilvægari er að eignarhlutur lífeyrissjóða í fyrirtækjum veitir almenningi hlutdeild í velgengni þeirra. Það skýrir vafalítið hvers vegna þessi fyrirtæki eru almennt mjög vel liðin á meðal almennings sem síðan veitir þeim aðgang að hæfu starfsfólki og starfsfrið frá neikvæðum straumum og jafnvel lýðskrumi," segir Sigurður.

 
 
 

mbl.is Vandi hve illa gengur að laða að erlenda fjárfesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta nokkuð nýtt.

Ég held að þú Baldur, hafir verið að segja þetta alla vega í hálft ár.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 18:20

2 identicon

Ætli það sé ekki orðið allt of seint að gera eitthvað úr þessu. Fólk er orðið allt of skuldugt og þegar atvinnuleysi brestur á getur það ekki staðið í skilum.

Í síðustu niðursveiflu töpuðu bankarnir 5% af útlánum. Ef hlutfallið verður það sama núna þá verða það gríðarlegar upphæðir, en ég er hræddur um að 10 til 20% útlánatap væri nærri lægi núna. Fólk er svo miklu tæpara á öllu núna ef eitthvað breytist.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 19:32

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Menn eru skuldaglaðir á meðan vel gengur og næga vinnu er að hafa. En hagkerfi sem mikið til byggist á skuldapappírum og hvers kyns þjónustu hlýtur að vera afar viðkvæmt fyrir samdrætti. Þess vegna held ég að vinnumarkaðurinn sé fremur viðkvæmur núna. Launakerfin hafa líka farið út og suður og ruglast á síðustu árum sem gerir þetta enn hættulegra. Menn miða sín fjármál við laun sín og reikna víst frekar með að þau hækki en hitt.

Þess vegna þurfum við að finna efnahagsaðgerðir sem styðja allt í senn; atvinnulífið, hag og efnahagslegt öryggi almennings og gjaldmiðilinn. Ég legg til eftirfarandi aðgerðir í áföngum næstu 2-3 árin:

1. 20-30% launalækkun, þó ekki á algjöra lágmarksframfærslu (etv. 150 þús).

2. Fjórðungs niðurskurð ríkisapparatsins.

3. 25-30% skattalækkun, helst með hækkun pers.afsláttar og lækkun virðisaukaskatts.

4. Bankar og lánastofnanir gefi eftir hluta útlána sinna eftir samningum í tengslum við þessar ráðstafanir.

Þetta er bara beinagrind ráðstafananna, meira um þetta síðar. Hugsanir?

Baldur Fjölnisson, 29.2.2008 kl. 20:49

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

P.S.  Að sjálfsögðu þarf að reka ríkisstjórnina strax og senda Alþingi í endurhæfingu. Jafnframt þarf að hreinsa algjörlega út úr seðlabankanum og láta bankana skaffa stórn og staff þar.

Við taki þjóðstjórn á breiðum grundvelli, skipuð fulltrúum almennings og atvinnulífsins. Bankarnir verði þar með koppa innanlega í búrinu. Þetta verður krísustjórn með þunga ábyrgð og því ber að velja í hana fólk án froðusnakks en með innihald.

Baldur Fjölnisson, 29.2.2008 kl. 20:58

5 identicon

Mér líst vel þá þessar ráðstafanir, nema 1, hafa lágmarkslaun 200 þús.

Hvernig líst þér á harðferð inní ESB?

  • Það er hægt að semja á nokkrum vikum ef vilji er fyrir hendi hjá okkur, þeir vilja kippa okkur inn af ýmsum ástæðum, t.d. setur það þrýsting á Norðmenn.
  • Kjósa næsta haust
  • Innganga um áramótin næstu

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 21:14

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta skuldapappíra/þjónustu hagkerfi byggist algjörlega á tiltrú og væntingum (eins og aðrir keðjubréfafaraldrar) og því hefur fólk með sölumannshæfileika í auknum mæli verið fjármagnað inn á Alþingi og í ríkisstjórn. Sölumenn treysta mikið á jákvæða en jafnframt afar gildishlaðna og innihaldslitla frasa. Og það er alltaf eilíft sólskin í þeirra sölumannaheimi og ef þrátt fyrir það hleðst upp skýjabakki þá er það bara tímabundið og þú mátt treysta því að þú ert í öruggum sölumannahöndum. Og ef þeir selja þér ónýta vöru og geta ekki logið sig frá því þá er það einhverjum öðrum að kenna.

Einhverfir skissófrenar eru ídeal sölumenn. Með réttri þjálfun má láta þá ljúga algjörlega sjálfvirkt. Þeir trúa jafnvel eigin lygum og eru því eftirsóttir sem bílasalar jafnt sem stjórnmálamenn. Mikið og sívaxandi framboð þessarar manntegundar tel ég að megi rekja til geðveikislegrar sprautuvæðingar síðustu áratugina auk annars óþverra sem hefur verið komið í fólk gegnum matvæli og etv. eftir öðrum leiðum. Gríðarleg aukning á örbylgjugeislun frá farsímum og öðru hefur sjálfsagt líka haft áhrif. Athugið að þetta hefur allt laggandi áhrif og magnast með tímanum. Til að leiða athygli okkar frá þeirra eigin síkópatí segja þessir vitleysingar okkur að pæla ekki í hinu liðna heldur horfa þess í stað fram á veginn. Það er víst kóróna geðhagfræðinnar og geðstjórnmálafræðinnar, nútímamaðurinn á að vera í eilífum nútíma og eilífri æsku. Hann á að vera sem barn sem treystir fullkomlega "foreldrum" sínum sem eru einmitt þessir heilaskemmdu sölumenn sem ég nefndi að ofan. 

Baldur Fjölnisson, 29.2.2008 kl. 21:57

7 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Sveinn, varðandi Evrópusambandið þá er óhjákvæmilegt að við göngum í það.

En bandarísk/breskir leppar munu sjálfsagt áfram hindra það. Við getum kallað það geðskriðþunga heimsku og afneitunar. Það laðast óhjákvæmilega hvað að öðru sem deilir sameiginlegum gildum og geðveilu. 

Baldur Fjölnisson, 29.2.2008 kl. 22:07

8 identicon

Ég gæti trúað að á næstu dögum eða vikum komi svo gríðarlegur skellur að jafnvel forskrúfuðu vitleysingarnir í Dvergasteini neyðist til að hugsa hlutina upp á nýtt.

Fara spennufíklarnir í krónubréfabransanum fari ekki að kippa að sér höndunum og þá hrinur spilaborgin. Hvernig ætlar Seðlabankinn að standast áhlaup upp á 800 miljarða?

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 23:03

9 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég held að það sé veruleg hætta á hörðum skelli. Afneitun og getuleysi og innantómir frasar einkenna bæði landsstjórnina og seðlabankann þannig að ekki er við neinu sérstöku að búast þaðan. Samningarnir nýju eru í raun þegar komnir í vaskinn nema hvað varðar hið mjög svo mikilvæga og skynsamlega atriði að launþegar geta orðið varið sig með því að fá launin í erlendum gjaldmiðli.

Tillögum mínum er ætlað að verja ráðstöfunartekjur almennings og styrkja atvinnuvegi og gjaldmiðil. Atvinnulífið er skuldugt upp fyrir haus og þarf nauðsynlega kostnaðarlækkanir og þar sem laun eru sjálfsagt amk. 60-70% af kostnaði liggur beint við að skera niður þar. Lækkandi kostnaður tryggir síðan störfin í atvinnulífinu og gefur því kost á að bæta við sig fólki. Það sem við þurfum síst af öllu núna er samdráttur á vinnumarkaði. Fólk er það skuldum hlaðið að lítið má út af bregða.  

Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hver launin akkúrat eru heldur hvað launþegar fá í ráðstöfunartekjur. Þá liggur beint við að skera niður ótrúlega tröllvaxið ríkisapparat og forsjárhyggjuskrímsli sem hægri kommúnistar hafa hróflað upp hér á síðustu áratugum. Það er algjörlega raunhæft að skera það niður um amk. fjórðung á næstu 2-3 árum ásamt meðf. skattalækkunum.

Baldur Fjölnisson, 1.3.2008 kl. 16:27

10 identicon

Heill og sæll, Baldur minn !

Hygg; að nóg sé komið, af útlanda væðingunni, um stund hér á Fróni.

Er ekki rétt, að menn kasti mæði, og nái áttum, að nokkru ?

Með beztu kveðjum, sem fyrr / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldur Fjölnisson

Höfundur

Baldur Fjölnisson
Baldur Fjölnisson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2045164784 9dea341f49 o
  • miracle
  • ...ap_20poll

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband